Líður bara alveg ágætlega.

Jæja gott fólk þá er bara komin helgi á ný. Ég er búinn að vinna í viku hjá DHL í "fataflutningsdeildinni" ansi fróðlegur tími og ég held hreinlega að mig langi nú ekki að vinna þar meir. DHL sér um fataflutning fyrir nokkrar fataverksmiðjur hér í Danmörku og þetta er nú bara ansi magnað. Fatnaðurinn kemur inn í stórum gámum og allt á herðatrjám...herðaplasti...lítið um tré. Þarna er alls konar fatnaður sem fer til fataverslana víða. Má þar nefna Þýskaland, Holland, Belgíu, norðurlöndin og nokkur fleiri. Ég meira að segja smellti einni sendingu sem átti að fara til Íslands. Allur þessi fatnaður er sem sagt keyrður inn á svokallaðar línur og þar er hann flokkaður og svo sendur áfram. Ég vann þarna frá fimm á daginn til rúmlega miðnættis. Ég var frekar utan við mig þarna fyrir um 2 dögum síðan. Ég var að fylla á gám sem átti að fara til Þýskalands. Ekki vildi betur til en svo að ég í öllum flýtinum smellti mínu annars fallega andliti á járnstöng og fékk þetta fína högg á nef og tennur. Ég var mjög heppinn að brjóta ekki tennurnar, en fékk ríflegar blóðnasir og mátti hafa mig allan við að blæða ekki yfir þennan fína fatnað sem kátir þjóðverjar áttu að fá heiðurinn af. Mér finnst ég eiga pínu í þessari sendingu núna, því á gólfinu skildi ég eftir fínan skammt af DNAi. Vonandi kemst ekki þýska CSI í málið. Skildi þó ekki vera að Harry Klein sé þar.

Að öðru leyti þá líður mér nú bara alveg ágætlega. Ég tek einn dag í einu og það er bara alveg ágætt. Sáttur við menn, mýs, veður og tja bara allt saman.

Jamm, jæja ég ætla að láta þessu lokið í bili og glápa áfram á snilldarmyndina "I Kina spiser de hunde."

Bið að heilsa öllum nær og fjær,

Arnar Thor

Ummæli

Vinsælar færslur